Bráðabirgðaútgáfa.

154. löggjafarþing — 105. fundur,  30. apr. 2024.

samvinnufélög, Evrópufélög og evrópsk samvinnufélög.

939. mál
[17:56]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um Evrópufélög og lögum um evrópsk samvinnufélög. Frumvarpið felur í sér ákveðna uppfærslu á lögum um samvinnufélög, sem eru frá árinu 1991, og er meginmarkmið frumvarpsins að renna tryggari stoðum undir rekstur samvinnufélaga.

Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um samvinnufélög eru þríþættar. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu að finna tillögu að breytingu á fjölda stofnenda og félagsmanna samvinnufélaga þar sem lagt er til að stofnendur og félagsmenn geti verið þrír hið fæsta, í stað fimmtán samkvæmt núgildandi lögum, sbr. 2. gr. og b-lið 7. gr. frumvarpsins. Þessi breyting er mikilvægur liður í því að einfalda og auðvelda stofnun samvinnufélaga og greiða með því fyrir fjölbreyttara rekstrarformi í atvinnulífinu.

Í öðru lagi er í frumvarpinu að finna tillögur sem miða að því að sporna við að félagsmenn í samvinnufélagi geti tekið félagið yfir og útdeilt eignum þess til félagsmanna í stað þess að styðja áframhaldandi uppbyggingu á starfssvæði eða á starfssviði félagsins. Snúa þær tillögur að því að þrengja reglur um slit samvinnufélags og fella niður heimild til að breyta samvinnufélagi í hlutafélag, sbr. 1. og 6. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að felld verði brott heimild til að breyta samvinnufélagi í hlutafélag og jafnframt er í 9. gr. frumvarpsins lagt til að heiti XII. kafla laganna verði breytt til samræmis og orðin: „Breyting á rekstrarformi samvinnufélaga“ felld brott í heiti kaflans. Í 3. gr. frumvarpsins er jafnframt lagt til að þak verði sett á fjárhæð aðildargjalds hjá samvinnufélögum með yfir 100 félagsmenn til að auðvelda þeim sem vilja að taka þátt í starfsemi samvinnufélags á sínu starfssvæði eða starfssviði. Í 5. gr. frumvarpsins er enn fremur lagt til að þak verði sett á ráðstöfun hagnaðar til greiðslu í A-deild stofnsjóðs. Í a-lið 7. gr. frumvarpsins er lagt til að í samvinnufélögum með fleiri en 100 félagsmenn þurfi samþykki ¾ hluta atkvæðisbærra fundarmanna á tveimur félagsfundum með a.m.k. tólf mánaða millibili til að samþykkja slit félags. Þá er í 8. gr. frumvarpsins lagt til að við slit samvinnufélags þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 og eigið fé er að lágmarki 750.000.000 kr. skulu félagsaðilar sem eiga hlut í A-deild stofnsjóðs aldrei fá greidda til sín hærri fjárhæð en sem nemur eign þeirra í sjóðnum, með að hámarki 15% álagi. Jafnframt skal í tillögunni um slit félagsins kveðið á um stofnun sjálfseignarstofnunar sem til skulu falla allar óráðstafaðar eftirstöðvar af eigin fé félagsins, sem skal hafa það að verkefni að styðja við samfélagsverkefni til almannaheilla á fyrrum félagssvæði hins slitna félags samkvæmt nánari ákvæðum í hinni samþykktu tillögu um slitin.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu að finna þrjár tillögur að breytingum á lögum um samvinnufélög, sem eru til almennrar lagfæringar, sbr. 4. gr., c-lið 7. gr. og 10. gr. frumvarpsins. Um minni háttar lagfæringar er að ræða til að gera löggjöfina aðgengilegri og nútímalegri.

Þá er einnig í frumvarpinu að finna tillögur um að settar verði almennar reglugerðarheimildir í lög um Evrópufélög og lög um evrópsk samvinnufélög, en slíka heimild er ekki að finna í löggjöfinni.

Virðulegi forseti. Verði frumvarpið að lögum mun lagasetningin hafa í för með sér samfélagslegan ávinning en meginmarkmið frumvarpsins er, eins og fyrr segir, ákveðin uppfærsla á löggjöf um samvinnufélög, og að rennt verði tryggari stoðum undir rekstur samvinnufélaga og hagsmunir félagsmanna tryggðir. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem muni m.a. gera það aðgengilegra og einfaldara að vinna undir félagaformi samvinnufélaga, sem er mikilvægur liður í fjölbreyttu rekstrarformi í atvinnulífinu. Þeim breytingum sem felast í frumvarpinu er ætlað að treysta grundvöll samvinnufélaga og tryggja að hagsmunir þeirra samfélaga þar sem þau kunna að vera starfrækt njóti vafans ef til slita kemur á félagi.

Virðulegi forseti. Verði frumvarp það sem ég mæli hér fyrir óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að lagasetningin hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.